Ferill 385. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


125. löggjafarþing 1999–2000.
Þskj. 643  —  385. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000.)


1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Vörugjald af bifreiðum sem eru gjaldskyldar skv. 3. gr. laganna og búnar eru vélum sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu skal vera 120.000 kr. lægra en ella væri samkvæmt greininni.
    Heimild til lækkunar skv. 1. mgr. gildir til 31. desember 2003.
    Ráðherra getur sett nánari reglur um lækkun vörugjalds samkvæmt þessu ákvæði, svo sem um tæknilegan búnað bifreiðar, hvað teljist vera „að verulegu leyti“ skv. 1. mgr. og þau gögn sem leggja þarf fram með umsókn um lækkun vörugjalds á grundvelli þessa ákvæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Sé þess óskað skal endurgreiða vörugjald af þeim bifreiðum sem uppfylla skilyrði 1. gr. þessara laga og tollafgreiddar eru milli 10. febrúar 2000 og gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði tímabundin heimild til að lækka vörugjald af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu, svokölluðum tvíorkubifreiðum. Innflutningsverð tvíorkubifreiða er alla jafna nokkru hærra en hefðbundinna ökutækja og er heimildinni ætlað að gera þær samkeppnisfærari á almennum markaði. Markmiðið með breytingunni er að styðja við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum. Einnig hefur verið bent á að notkun tvíorkubifreiða sé nauðsynlegt skref í frekari þróun í framleiðslu bifreiða sem eingöngu verða knúnar öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu. Það byggist meðal annars á því að dreifikerfi fyrir aðra orkugjafa er enn svo gisið að ekki er unnt að reikna með almennri notkun slíkra bifreiða strax. Enn fremur eru ýmsar aðrar tæknilegar hindranir því til fyrirstöðu. Síðast en ekki síst er aukin notkun tvíorkubifreiða í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og þá stefnu stjórnvalda að auka hlut innlendra orkugjafa. Samráð hefur verið haft við umhverfisráðuneytið um þessa stefnumörkun.
    Örðugt er að áætla með sæmilegri vissu áhrif framangreindrar lagabreytingar á tekjur ríkissjóðs. Sem fyrr segir eru tvíorkubifreiðar almennt dýrari en venjulegar bifreiðar og því líklegt að hreint tekjutap ríkissjóðs verði óverulegt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða um að vörugjald af bifreiðum með búnaði sem gerir þeim kleift að nýta metangas eða rafmagn í stað bensíns eða dísilolíu verði allt að 120.000 kr. lægra en ella. Þessi lækkun svarar til vörugjalds af 300.000 kr. tollverði bifreiðar sem ber 40% vörugjald. Þannig yrði greidd sama krónutala í vörugjald af bifreið sem fellur undir lækkunarheimildina og kostar 1.000.000 kr. í innkaupum (þ.e. af tollverði) og af venjulegri bifreið sem kostar 700.000 kr. í innkaupum (þ.e. af tollverði). Aukakostnaður við hverja bifreið sem hefur búnað til að nýta metangas eða rafmagn er nokkuð breytilegur en þó lætur nærri að hann nemi í mörgum tilvikum um það bil 300.000 kr. af tollverði bifreiðar. Að öðru leyti er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu.

Um 2. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um gildistöku laganna og þarfnast hún ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um
vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að lækka tímabundið til loka ársins 2000 vörugjald af bifreiðum sem nýta að verulegu leyti metangas eða rafmagn sem orkugjafa. Frumvarpið beinist því einkum að tekjuhlið ríkissjóðs og er ekki talið að það hafi áhrif á útgjöld hans svo nokkru nemi verði það að lögum.